Stefna og markmið

1. Stefna og markmið

Listdansskóli Hafnarfjarðar er félag með fimm deildir, forskólann Glitrandi stjörnur, ballettdeild, djassdeild, loftfimleikadeild, fullorðinsdeild. Félagið starfar innan vébanda Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Starfsemi félagsins byggir á lögum þess.

Meginhlutverk félagsins er að efla áhuga á dansi, glæða áhuga almennings á gildi dans og virkja sem flesta til þátttöku í dansi og almennu félagsstarfi.

Félagið stendur fyrir kennslu í námsgrein hverrar deildar. Áhersla er lögð á að deildir félagsins eigi með sér samstarf auk þess sem stjórnendur deilda eru hvattir til aukinnar samvinnu við stjórnendur grunnskóla og annarra aðila sem hafa með hagsmuni barna- og unglinga að gera. Þannig má skapa tækifæri til dansiðkunar á breiðum grunni.

Stefnumið í ýmsum málaflokkum
Eitt af meginmarkmiðum Listdansskóla Hafnarfjarðar er að skapa iðkendum góðar aðstæður til dansiðkunar. Í þjálfun og kennslu er leitast við að taka tillit til getu, þroska og aldurs iðkenda. Kennarar og stjórnarmenn starfa eftir stefnu og markmiðum félagsins

Kennaramenntun – Að kennarar sem starfa hjá Listdansskóla Hafnarfjarðar

  • hafi BA gráðu/diplóma eða 3 ára reynslu sem aðstoðarkennari.
  • hafi aðstoðarkennara til staðar ef um stóra hópa er að ræða.
  • sæki námskeið á meðan þeir starfa við þjálfun til að auka við kennaramenntun sína.

Skipulag félags og deilda – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar stuðli að því:

  • að stjórnendur vinni eftir skráðu skipuriti
  • að öflugt samstarfi sé á milli deilda og hópa
  • að stjórnendur og kennarar deilda fylgi eftir skrásettum stefnum og markmiðum félagsins
  • að hver deild vinni að markmiðasetningu fyrir innra starf sinnar deildar

Foreldrasamstarf – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar og stjórnir deilda og ráða

  • upplýsi foreldra um helstu markmið félags og deilda
  • vinni að því að fá foreldra til starfa að félagsmálum innan félagsins
  • setji starfsreglur vegna foreldrastarfs

Fræðsla og forvarnir – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar, stjórnir deilda, ráða og kennarar

  • vinni eftir forvarnarstefnu ÍSÍ
  • standi fyrir fræðslu fyrir iðkendur og foreldra um gildi dansins og ýmsa þætti tengda honum s.s. næringu, svefn og hvíld.
  • leiti eftir fræðslu frá og samvinnu við sérmenntað fólk og stofnanir þeim tengdum varðandi forvarnir á ýmsum sviðum.

Jafnrétti – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar og stjórnir deilda og ráða

  • stuðli að greiðum aðgangi beggja kynja að þeim dansstílum sem hjá félaginu eru stundaðar
  • stuðli að því að bæði drengjum og stúlkum séu kynntar þær greinar sem stundaðar eru hjá félaginu
  • stuðli að því að skapa öllum jafna möguleika á að stunda dans innan félagsins

Fjármál og rekstur – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar og stjórnir deilda og ráða sjái til þess:

  • að nákvæm fjárhagsáætlun sé gerð fyrir félagið
  • að markvisst eftirliti sé með áætlanagerð félags og að endurskoðun sé virk og fari reglulega fram

Mannvirki og umhverfismál – Að aðalstjórn Listdansskóla Hafnarfjarðar og stjórnir deilda og ráða og kennarar:

  • vinni að því að aðstaða sem félagið hefur aðgang að fullnægi þörfum þeirra dansstíla sem hjá félaginu eru stundaðar
  • sjái til þess að umhverfismál félagsins séu í takt við stefnu stjórnvalda hverju sinni
  • leggi áherslu á góða umgengni iðkenda innan húss og utan
  • sjái til þess að iðkendur, kennarar og starfsfólk gangi frá í sölum skólans eftir æfingar
  • sjái um að æfingasvæði séu vímuefnalaus
  • að leitast sé við að nota umhverfisvæn efni sem mest innan húss

2. Markmið

Meginmarkmið Listdanskóla Hafnarfjarðar er að sjá til þess að félaginu séu skapaðar aðstæður þannig að einstaklingar geti eflt þroska sinn og fengið tækifæri til iðkunar þeirra dansstíla sem hjá félaginu eru stundaðar. Hér á eftir er að finna helstu markmið skólans.

Markmið 1 – að efla þátttöku barna í Hafnarfirði í dansi.

  • Öflugt kynningarstarf á starfi félagsins
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar kynnir þátttöku sína sem valáfanga innan grunnskóla Hafnarfjarðar
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar leggi áherslu á félagslega þáttinn í starfi allra flokka.

Markmið 2 – að minnka brottfall barna og unglinga úr starfi Listdansskóla Hafnarfjarðar.

  • Listdansskóli Hafnarfjarðar leggi áherslu á félagslega þáttinn í starfi allra flokka utan hefðbundinna æfingatíma.
  • Kennarar leggi áherslu á að æfingar séu skemmtilegar.
  • Lögð sé áhersla á að greina ástæður brottfalls og leita leiða til úrbóta sé þess þörf.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar leggi áherslu á öflugt og virkt foreldrasamstarf innan félagsins.
  • Lögð sé áhersla á samræmda æfingatíma og samvinnu kennara á milli deilda varðandi æfingar og sýningar til að gæta að hæfilegu æfingaálagi.

Markmið 3 –  að Listdansskóli Hafnarfjarðar leitist við að hafa gæði og fagmennsku í fyrirrúmi í öllu starfi sínu.

  • Listdansskóli Hafnarfjarðar leggi metnað sinn í að ráða til sín góða og vel menntaða kennarar.
  • Menntun kennara sé í samræmi við þær kröfur sem viðkomandi sérsamband gerir.
  • Kennarar séu styrktir til náms og endurmenntunar.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar bjóði þjálfurum, iðkendum, foreldrum, stjórnarmönnum og starfsfólki reglulega upp á námskeið eða fræðslu sem stuðlar að því að auka þekkingu á atriðum tengdum dansi.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar samræmi starf deilda til að hámarka þjónustu og árangur.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar útbúi opinbera námskrá fyrir allar deildir félagsins og að að tryggt verði að starfað sé eftir henni.
  • Lögð sé áhersla á að hafa virkt innra og ytra mat á starfi félagsins.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar veiti sérstök hvatningarverðlaun til einstaklinga sem hafa sýnt jákvæð vinnubrögð í tímum, góða mætingu, miklar framfarir og ástríðu fyrir dansi.

Markmið 4 – að þjónusta við félagsmenn sé ávallt fyrsta flokks.

  • Lögð sé áhersla á að nýting rýma í húsnæði Listdansskóla Hafnarfjarðar verði með sem bestum hætti (klefar, afgreiðsla, fundaraðstaða og æfingasvæði o.s.frv.).
  • Kennarar hvetji iðkendur til að ganga vel um aðstöðuna í hvívetna.
  • Listdansskóli Hafnarfjarðar geri auknar kröfur til hreinlætis í húsnæði sem félagsmenn nýta.
  • Starfslýsing sé til fyrir framkvæmdastjóra, kennara og aðstoðarkennara félagsins.

Markmið 5 – að rekstur félagsins byggi á traustum fjárhagslegum grunni svo stöðugt megi bæta þá þjónustu og aðstöðu sem félagið veitir.

  • Þjónustusamningur við Hafnarfjarðarbæ endurskoðaður reglulega.
  • Leitað verði leiða til að fá öfluga styrktaraðila fyrir félagið í heild.
  • Fjárhagsáætlanir allra deilda liggi fyrir í september.
  • Bókhald sé fært reglulega þannig að hægt sé að fylgjast með stöðu frá mánuði til mánaðar og grípa til aðgerða ef ekki er farið eftir fjárhagsáætlunum.
  • Aðalstjórn yfirfari fjárhagsstöðu deilda ársfjórðungslega.

Markmið 6 – að kynningarmál Listdansskóla Hafnarfjarðar sé með þeim hætti að þátttaka í starfi félagsins sé sem víðtækust og stuðningur við daglegan rekstur sem öflugastur. 

  • Gerð verði kynningaráætlun fyrir félagið í heild.
  • Öll útgáfa, tilkynningar, fjáröflunarstarf, samkomur eða annað sem gert er í nafni félagsins skal vera með þeim hætti að Listdansskóli Hafnarfjarðar sé sómi af.
  • Félagið haldi úti öflugri og virkri heimasíðu.
  • Lögð sé sérstök áhersla á að nota nútíma miðla við upplýsingagjöf.